Gengi helstu hlutabréfavísitalna beggja vegna Atlantsála tók sveig niður á við nú síðdegis eftir að greint var frá því að fundi fjármálaráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins sem halda átti á morgun hafi verið frestað.

Lækkunin nam í kringum hálf prósent á evrópskum hlutabréfamörkuðum. Um tíma höfðu vísitölur í Bandaríkjunum lækkað um tæpt 1,5 prósent.

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, staðfesti að þjóðarleiðtogarnir muni engu að síður funda. Reyna á til þrautar á morgun að komast að samkomulagi um það hvernig leysa eigi skuldakreppuna á evrusvæðinu og koma í veg fyrir að fjárhagsvandræði Grikkja hafi of neikvæðar afleiðingar til annarra landa.

Danska viðskiptablaðið Börsen segir ekki liggja fyrir hver ástæðan sé fyrir því að fundi fjármálaráðherranna hafi verið frestað.