Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja lækkanir dagsins til skaða fjárfesta og fjármálafyrirtækja vegna svikamála hins bandaríska Bernard Madoff auk þess sem franski bankinn BNP Paribas tilkynnti í dag um mikið tapa fyrstu 11 mánuði ársins.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur Evrópu, lækkaði um 1,2% í dag og hefur því lækkað um 45% það sem af er þessu ári.

Það voru bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði BNP Paribas um 17,7%, Deutsche Bank um 7,8% og Royal Bank of Scotland um 10% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan þó um 0,4%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,2% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,3% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan einnig um 0,3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,1%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,4% en í Osló hækkaði OBX vísitalan um 2,2%.