Fjárþörf Ríkisútvarpsins á árinu 2014 er 654 milljónir en var 410 milljónir árið 2013. Ef fjárfestingar samkvæmt sjóðstreymi, greiddir vextir og afborganir lána eru dregin frá veltufé frá rekstri, fyrir vexti og skatta, er niðurstaðan sú að fjárþörf er mikil. Lagt hefur verið til að RÚV fái 182 milljónir króna í tímabundið framlag sem sé háð endurskipulagningu RÚV. Eins og margsinnis hefur komið fram er RÚV yfirskuldsett en stjórnendur hafa sagt að óskert útvarpsgjald dugi til þess að halda óbreyttri starfsemi.

Um áramót er jafnframt gert ráð fyrir að útvarpsgjaldið muni lækka úr 19.400 krónum í 17.800. Ári síðar mun það lækka niður í 16.400 krónur. Hingað til hefur RÚV eingöngu fengið hluta af útvarpsgjaldinu en samhliða þessari lækkun mun allt útvarpsgjald renna til stofnunarinnar.

Rekstrargjöld RÚV hækka um rúm átta prósent milli ára en rekstrarár RÚV er frá 1. september til 31. ágúst ár hvert. „Hagræðingaraðgerðirnar sem gripið var til, með fjölda uppsagna, voru í desember 2013, stuttu eftir að ég tók sæti í stjórninni. Hagræðingin er því ekki að koma fram fyrr en á seinni helmingi ársins, hún kemur því ekki að fullu inn í þetta rekstrarár sem við erum að ræða um. Eins kemur afrakstur af þeim aðgerðum sem gripið var til á seinni hluta ársins að verulegu leyti fyrst fram á yfirstandandi rekstrarári. Varðandi síðastliðið rekstrarár verður einnig að líta til þess að ýmsir kostnaðarþættir í rekstrinum hafa verið að hækka sem núverandi stjórnendur hafa haft litla stjórn á eins og samningur um nýtt dreifikerfi, en sá kostnaður er að koma þungt inn á þetta ár,“ segir Ingvi Hrafn Óskarsson, stjórnarformaður stjórnar RÚV.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .