Óhætt er að fullyrða að Suðurnesin séu það svæði landsins sem fóru hvað verst út úr hinum alræmdu kreppuárum sem fylgdu í kjölfar efnahagshrunsins. Atvinnuleysi fór upp í hæstu hæðir og hlutfallslega voru flestar nauðungarsölur á fasteignum á svæði og allt bættist þetta við brotthvarf varnarliðsins nokkrum árum áður. Að undanförnu hafa þó borist jákvæðari fréttir frá svæðinu. Atvinnulífið hefur eflst stórlega og íbúum á Reykjanesi fjölgar nú að jafnaði mest af öllum svæðum á landinu og miðað við áætlanir er hér aðeins um að ræða byrjunina á mikilli fólksfjölgun. Uppbygging sem þessi kallar á víðtæka innviðauppbyggingu og það setur bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ, sem undanfarið hefur átt í miklum fjárhagserfiðleikum, í erfiða stöðu. Árni Sigfússon, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir ljóst að mjög erfitt verði að standa við samþykkt markmið um 150% skuldahlutfall árið 2022 og að öllum líkindum verði þau að víkja fyrir innviðauppbyggingu á svæðinu ef fram fer sem horfir.

Eins og eitt nýtt álver á ári

Árið 2012 var atvinnuleysi í Reykjanesbæ með því mesta sem þekktist á landinu og í desembermánuði sama ár voru 1.123 einstaklingar á svæðinu skráð- ir atvinnulausir. Í dag er ástandið á svæðinu hinsvegar gerbreytt og atvinnuleysi mælist undir 2%. Hið bætta atvinnulíf á Suðurnesjunum er afleiðing ýmissa samverkandi þátta en það er þó ljóst að aukin ferðaþjónusta og umfangsmikil stækkun Keflavíkurflugvallar hefur hvað mest áhrif. Áætlanir gera ráð fyrir að völlurinn verði orðinn stærsti vinnustaður landsins innan tveggja ára og að rúmlega 16.000 manns muni starfa á Keflavíkurflugvelli árið 2040.

Í skýrslu Isavia sem ber heitið: Keflavíkurflugvöllur – Stóriðja í stöðugum vexti: Hvaða þýðingu hefur uppbygging Keflavíkurflugvallar til framtíðar?, eru settar fram nokkrar sviðsmyndir um fjölgun starfa á flugvellinum. Líkt og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu gerir sú svartsýnasta ráð fyrir að fram til ársins 2040 muni störfum fjölga að meðaltali um 381 á ári. Jafngildir það „einu litlu álveri á hverju einasta ári á svæðinu, hvað varðar ný störf. Það þarf því að huga að því hvernig svæðið, og landið allt, er undir það búið að takast á við þessa þörf.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.