Magnús Geir Þórðarson tekur formlega við stöðu útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins af Páli Magnússyni 10. mars næstkomandi. Magnús hefur starfað sem leikhússtjóri Borgarleikhússins síðastliðin sex ár en þau hafa verið mikil uppgangsár í leikhúsinu enda hefur aðsókn aldrei verið meiri í íslenskri leikhússögu.

„Þetta rennur nú aðeins saman hjá mér, leikhússtjórastaðan og staðan á RÚV, enda er ég nú þegar byrjaður að setja mig inn í hin ýmsu mál á nýja vinnustaðnum,“ segir Magnús. „Ég hef enn í nógu að snúast hjá Borgarleikhúsinu og stend einnig frammi fyrir því mikilvæga verkefni að koma nýjum manni inn í starfið. Það skiptir mig miklu máli að skilja vel við leikhúsið sem mér þykir svo vænt um,“ bætir Magnús við. Aðspurður segist Magnús afar spenntur fyrir nýju starfi hjá RÚV og hann sé fullur tilhlökkunar.

Magnús nam leikstjórn við The Bristol Old Vic Theatre School á árabilinu 1993-1995 eftir að hafa lokið námi við Menntaskólann í Reykjavík. Árið 2001 fór hann aftur út í nám, í þetta skiptið í meistaranám í leikhúsfræðum við Háskólann í Wales í Bretlandi. „Þetta var frábær tími,“ segir Magnús. „Bæði var ég mjög ánægður með námið sjálft en auk þess var gaman að sökkva sér í leikhúslífið í Bretlandi, enda mikið um að vera í listalífinu á þessum slóðum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .