Hagnaður FL Group fyrir skatta fyrstu níu mánuði ársins 2006 nam 11.317 milljónum króna samanborið við 8.030 milljón króna hagnað á sama tímabili síðasta árs. Eftir skatt nemur hagnaður FL Group 10.978 milljónum á fyrstu níu mánuðum ársins, en hann nam 6.575 milljónum króna fyrstu níu mánuði síðasta árs að því er segir í frétt fyrirtækisins.

Á þriðja ársfjórðungi 2006 skilaði FL Group 5.257 milljón króna hagnaði eftir skatta en á sama tíma í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 4.642 milljónum króna. Hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatt fyrstu níu mánuði ársins nam 8.620 milljónum króna en á sama tíma í fyrra var hann 6.153 milljónir.  Hagnaður fyrir skatta eykst um meira en 40% frá sama tíma á síðasta ári.

"Hagstæður rekstur FL Group á þriðja fjórðungi ársins er fagnaðarefni. Þetta var viðburðaríkur tími í sögu félagsins og enn og aftur tókst vel til við rekstur, fjárfestingar og fjárstýringu. Útgáfa nýrra hluta í FL Group í tengslum við kaup á hlutum í Straumi-Burðarási hefur styrkt eiginfjárstöðu félagsins verulega. Eftir lok þriðja fjórðungs var gengið frá sölu á öllum hlut FL Group í Icelandair Group og auk þess hefur vinna við fjármögnun félagsins tryggt að það hefur yfir miklum fjármunum að ráða. Rekstur Sterling er á réttri leið og við teljum horfur í rekstri þess jákvæðar. Það er þess vegna ljóst að framundan eru spennandi tímar fyrir FL Group enda hefur félagið skapað sér trausta umgjörð til að takast á við ný verkefni,? segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group, í tilkynningunni.

Hagnaður af fjárfestingastarfsemi FL Group fyrir skatt nam 8.620 milljónum króna fyrstu níu mánuði ársins 2006. Eftir skatt nemur hagnaðurinn 8.571 milljónum króna. Á þriðja ársfjórðungi var hagnaður af fjárfestingastarfsemi FL Group 516 milljónir króna fyrir skatt og eftir skatt nam hann 1.617 milljónum króna.

FL Group hefur aukið fjárfestingar sínar í markaðsverðbréfum, aðallega á innlendum markaði með kaupum á bréfum í Straumi Burðarási og auknum hlut í Glitni. Fjárfestingar í seljanlegum verðbréfum jukust um 53,3 milljarða króna á þriðja fjórðungi ársins. Í lok september námu eignir FL Group í markaðsverðbréfum 197,2 milljörðum króna, þar af voru 45,4 milljarðar króna í erlendum verðbréfum og 148,1 milljarður í innlendum verðbréfum. Af heildarsafni markaðsverðbréfa eru 79,3 milljarðar króna í framvirkum samningum. Stærstu fjárfestingar félagsins eru í Glitni, 80 milljarðar króna og í Straumi Burðarási, 48,2 milljarðar króna.