Meirihluti Dana, sem fær greiddan út séreignarsparnað á næstu mánuðum, ætlar að nota peningana til að einkaneyslu af einhverju tagi, til dæmis kaupa utanlandsferð, flatskjá fyrir heimilið.

Aðrir ætla að ávaxta fjármunina áfram í lífeyriskerfinu eða taka út peningana og ávaxta þá sjálfir í bankakerfinu.

Þetta kemur fram á vef Landssamtaka lífeyrissjóðanna (LL) en þar er fjallað um niðurstöður könnunar á vegum danska lífeyrissjóðsins ATP í tilefni af því að 1,9 milljónir Dana munu til áramóta taka út alls 25 milljarða danskra króna af sérstökum séreignarsparnaðarreikningum í samræmi við lög sem þjóðþing Danmerkur samþykkir að líkindum 19. maí næstkomandi að frumkvæði ríkisstjórnarinnar.

Fram kemur að markmiðið með lagabreytingunni er að losa um fjármuni í þessum hluta lífeyriskerfisins til að eigendur þeirra geti betur staðið af sér þrengingar í efnahagskreppunni og til að örva hagvöxt með því að auka neyslu í samfélaginu. Ferðaskrifstofur í Danmörku hafa tekið við sér og auglýsa sumarleyfisferðir sem hægt er að greiða með séreignarsparnaði viðkomandi um leið og fjármunirnir liggja á lausu!

Sjá nánar á vef LL.