Farþegum um Ísafjarðarflugvöll fjölgaði um 8% á fyrri helmingi þessa árs, borið saman við sama tímabil árið 2007. Þetta kemur fram á vef Bæjarins Besta á Ísafirði.

Þar er rætt við Arnór Jónatansson, svæðisstjóra Flugfélags Íslands á Vestfjörðum. Að sögn Arnórs er skýringa á aukinni aðsókn fólks í flugferðir til og frá Ísafirði einkum að leita í háu eldsneytisverði. Nú sé svo komið að þrír þurfi að vera saman í bíl til að það sé ódýrara að keyra til Reykjavíkur en fljúga og því taki fleiri þann kost að fljúga, enda sé það mun fljótlegra.