Í desember 2010 voru skráð 144 ný einkahlutafélög (ehf) samanborið við 264 einkahlutafélög í desember 2009, sem jafngildir tæplega 45,5% fækkun milli ára. Eftir bálkum atvinnugreina voru flest einkahlutafélög skráð í Fasteignaviðskipti. Árið 2010 var heildarfjöldi nýskráðra einkahlutafélaga því 1.627 samanborið við 2.623 nýskráningar árið 2009 sem jafngildir tæplega 38% fækkun milli ára. Flestar nýskráningar á árinu 2010 voru í bálknum Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum.

Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar í dag.

Í desember 2010 voru 101 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta samanborið við 81 fyrirtæki í desember 2009, sem jafngildir tæplega 25% aukningu milli ára. Eftir bálkum atvinnugreina voru flest gjaldþrot í Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Árið 2010 var heildarfjöldi gjaldþrota því 978 samanborið við 910 gjaldþrot árið 2009 sem jafngildir tæplega 7,5% aukningu milli ára. Flest gjaldþrot á árinu 2010 voru í bálknum Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.