31 af 40 ákærum Ríkislögreglustjóra gegn forsvarsmönnum Baugs lúta að því tímabili þegar Baugur var skráð almenningshlutafélag. Hlutabréf Baugs Group voru skráð á Aðallista Verðbréfaþings Íslands (forvera Kauphallar Íslands) miðvikudaginn 28. apríl 1999 og varð Baugur þar með fyrsta verslunarfyrirtækið sem skráð var í kauphöll. Baugur Group hf. var afskráð úr Kauphöll Íslands 11. júlí 2003 eða ríflega fjórum árum síðar.

Þegar félagið var afskráð uppfyllti það ekki skráningarskilyrði þar sem einn hluthafi, Mundur ehf., hefur eignast yfir 90% hlutafjár í félaginu. Að Mundi ehf. stóðu Fjárfestingarfélagið Gaumur ehf. og tengdir aðilar, Kaupþing banki hf., Eignarhaldsfélagið Vor ehf., Eignarhaldsfélagið ISP ehf. og Ingibjörg Pálmadóttir. Fjárfestingarfélagið Gaumur ehf. er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs og fjölskyldu hans.

Síðustu viðskipti með Baug í Kauphöll Íslands fyrir afskráningu voru á genginu 10,80 en yfirtökutilboð Mundar hljóðaði upp á 10,85 fyrir hverja krónu nafnverðs. Þegar hlutabréf í félaginu voru seld til almennings í lok apríl 1999 voru þau seld á genginu 9,95. Breyting á verði bréfanna frá skráningu til afskráningar jafngildir 9,2% hækkun á bréfum félagsins en þá er ekki tekið tillit til arðgreiðsla eða útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Í almennu hlutafjárútboði félagsins fyrir skráningu í apríl 1999 voru boðin til sölu 10% af hlutabréfum í fyrirtækinu, 100 milljónir króna að nafnverði, eða 995 milljónir að söluverði. 5.729 skráðu sig fyrir hlut í fyrirtækinu. Markaðsverð félagsins miðað við útboðsgengi var 9.950 milljónir króna sem gerði félagið að því 7. stærsta á Verðbréfaþingi Íslands sé miðað við markaðsvirði hlutafjár.

Umframeftirspurn myndaðist í útboðinu og þannig var óskað eftir þrefalt þeirri fjárhæð sem í boði var. Hof hf. seldi í útboðinu 2% af hlut sínum í Baugi, seld voru 4% af hlut Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og 4% af hlut Kaupþings hf. Fyrr um veturinn höfðu bréf í félaginu verið seld fjárfestum á genginu 8,5. Reitangruppen hafði keypt á genginu 8,25.

Baugur hf. var stofnaður 1. júlí 1998 og yfirtók félagið þá rekstur matvöruverslana Hagkaups, Nýkaups, Bónus og Hraðkaups, auk innkaupa- og dreifingarfélagsins Aðfanga. Í október 1998 sameinuðust Hagkaup hf., Boðið heim ehf. og Eignarhaldsfélagið Gaumur ehf. félaginu og í nóvember voru dótturfélög Baugs hf., Aðföng ehf., Bónusbirgðir ehf. og Ísþor ehf. sameinuð félaginu, auk þess sem rekstur Bónuss sf. var yfirtekinn.