Flugfélag Íslands og sænska flugfélagið Skyways skrifuðu í dag undir samning um leigu á einni Fokker 50 flugvél Flugfélags Íslands til Skyways. Afhending vélarinnar mun fara fram seinnipart nóvember og mun Skyways hafa hana fram í miðjan maí á næsta ári eða í um 6 mánuði. Vélin verður því tilbúin til notkunar fyrir háannatímabil í rekstri Flugfélags Íslands sem er frá miðjum maí fram í september. Stefnt er að því að vinna að frekara samstarfi félaganna þar sem mismunandi árstíðasveiflur í rekstri þeirra geta gefið af sér ákveðin samlegðaráhrif.

Skyways flýgur innan Svíþjóðar til 18 áfangastaða og einnig til 3ja áfangastaða utan Svíþjóðar. Uppistaðan í flugflota félagsins eru Fokker 50 vélar en Skyways er með 14 slíkar í rekstri, einnig eru þeir með Fokker 100, Saab 340 og Saab 2000 vélar í rekstri. Á síðasta ári flutti félagið um 800.000 farþega.