Staða meginflugvalla landsins, Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar, er „vægast sagt erfið,” segir Pétur K. Maack, flugmálastjóri í nýútkominni ársskýrslu Flugmálastjórnar.

„Óvissa vegna framtíðar og skipulags Reykjavíkurflugvallar gerir rekstur hans mjög ómarkvissan. Vandsamt er að veita þar þá þjónustu sem óskað er eftir og uppfylla um leið allar flugöryggiskröfur. Stjórnmálamenn verða að taka upp aðra stefnu en þá að halda þessum lykilflugvelli í slíkri spennutreyju, einkum hvað varðar skipulagsmál, að hann nánast veslist upp,” segir Pétur.

Keflavíkurflugvöllur minnir á völl í Kosovo

Hann gerir einnig málefni Keflavíkurflugvallar að umtalsefni og kveðst vona að samfara því að rekstur hans fer undir opinbert hlutafélag muni takast vel til um stjórnskipulega endurreisn flugvallarins.

„Rekstur Keflavíkurflugvallar var á hálfgerðum byrjunarreit í ársbyrjun. Staða hans minnir um margt á aðstæður á flugvellinum í Pristína í Kosovo þegar ákveðið var að breyta honum úr herflugvelli í borgaralegan flugvöll, þótt á sumum sviðum, svo sem hvað varðar flugumferðastjórn, sé ólíku saman að jafna.”