Sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe, sem er að hluta til í eigu íslenska fjárfestingarfélagsins Fons, hefur samþykkt að kaupa breska leiguflugfélagið Astraeus, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Reiknað er með að kaupin verði tilkynnt til kauphallarinnar í Stokkhólmi síðar í dag.

Kaupverðið var ekki fáanlegt en stjórn FlyMe samþykkti í gær útgáfu forgangshlutabréfa til að fjármagna vöxt félagins.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að kaupin séu hluti af framtíðaráformum FlyMe um að verða eitt af stærstu lággjaldaflugfélögum í Evrópu, en fyrirtækið hefur sagt að það hafi áhuga á að stækka með yfirtökum.

FlyMe greindi frá því fyrr á þessu ári að félagið hefði náð samningum við Glitni um ráðgjöf og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun Glitnir einnig taka þátt í fjármögnun á vexti sænska flugfélagsins. FlyMe hefur einnig átt í viðræðum við Sterling, sem er í eigu FL Group, og FlyNordic, sem er í eigu Finnair, um hugsanlegan samruna.

Fons, sem stjórnað er af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni, er stærsti hluthafinn í FlyMe með rúmlega 20% eignarhlut. Astraeus er í eigu breska fjárfestingasjóðsins Aberdeen Murray Johnstone Private Equity og mun sjóðurinn halda hlut í Astreaus að sögn heimildarmanna Viðskiptablaðsins.