Í samtali við Viðskiptablaðið í dag segir Jón Diðrik Jónsson, fráfarandi forstjóri Glitnis, að ástæða þess að hann hættir hjá bankanum tengist ekki breyttu eignarhaldi hans.

"Ég kem að þessu starfi í bankanum um áramótin 2004-2005 og tek að mér ákveðin verkefni að leiða alþjóðasviðið og svo breytingar á íslensku einingunni sem eru nú langt komnar. Bankinn er á gríðarlegri siglingu. Ég er ekki að hætta vegna breytinga á eignarhaldi bankans og í bankastjórn, það er tilviljun að svo sé, enda hef ég átt gott samstarf með þeim aðilum undanfarið ár," segir Jón við Viðskiptablaðið og bætir við að næstu verkefni séu að klára sín mál hjá bankanum en hann ætlar ekki að hugsa um framhaldið strax og taka sér gott sumarfrí.

Þær breytingar voru gerðar á framkvæmdastjórn Glitnis banka í gær að Birna Einarsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Þróunarsviðs, tekur við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Glitnis á Íslandi. Jón Diðrik Jónsson, sem hefur verið forstjóri bankans á Íslandi, mun láta af störfum að eigin ósk að því er kemur fram í tilkynningu og tóku breytingarnar gildi í gær.

Breytingarnar fela í sér að öll þjónusta við einstaklinga og fyrirtæki sem eru í viðskiptum við útibúanet Glitnis um land allt, mun heyra undir Viðskiptabankasvið á Íslandi. Birna mun áfram hafa yfirumsjón með markaðsmálum bankans hérlendis sem og erlendis. Fyrirtækjaviðskipti sem áður voru hluti af fyrirtækjasviði á Íslandi munu nú færast undir Fyrirtækjasvið undir stjórn Guðmundar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra.