Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja, SÍL, héldu aðalfund fyrir helgi. Á fundinum var Einar Mäntylä, hjá Orf líftækni kosinn formaður stjórnar. Einar hefur setið í stjórn samtakanna frá upphafi en tekur nú við sem formaður. Meðstjórnendur eru Jakob K. Kristjánsson, hjá Prókatín og Snorri Þórisson hjá Rannsóknarþjónustunni Sýni.

Á aðalfundinum var farið yfir starf samtakanna undanfarið ár og lagðar voru fram tillögur að verkefnaskrá næsta starfsárs. Í frétt á heimasíðu Samtaka iðnaðains kemur fram að á síðasta ári unnu samtökin að verkefni um stöðu líftæknigreinarinnar ásamt ráðgjöfum og AVS rannsóknarsjóði, sem styrkti verkefnið. Í tengslum við þá vinnu voru fjölmörg líftæknifyrirtæki heimsótt. Niðurstöður verkefnisins voru kynntar formlega á opnum fundi fyrr um morguninn, "Ísland - lífvænleg uppspretta tækifæra ?" Það er von félagsmanna að fundurinn, og skýrsla sem þar var kynnt, skili upplýstri og ábyrgri umræðu um starfsumhverfi líftæknifyrirtækja og ekki síst aðgerðum. SÍL mun fylgja verkefninu eftir með markvissum hætti á næsta starfsári. Fjölmörg önnur verkefni hafa verið á döfinni og má þar nefna samvinnu við Samtök sprotafyrirtækja um fundarhöld um hátækni- og sprotafyrirtæki.