Steingrímur Pétursson, fjármálastjóri Avion Group, hefur ákveðið að láta af starfi sínu og hefur hann samið um starfslok sín hjá félaginu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Steingrimur hefur verið fjármálastjóri Avion Group frá því að félagið keypti Eimskip í júní 2005, en áður hafði hann starfað hjá Eimskip frá árinu 2004.

Miklar breytingar hafa verið á rekstri Avion Group síðustu daga og vikur. Félagið seldi meðal annars flug- og ferðaþjónustu einingu sína til Phil Wyatt, forstjóra Excel Airways, og Magnúsar Stephensen, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Avion Group, fyrir 450 milljónir Bandaríkjadala. Magnús mun hætta störfum hjá félaginu.

Áætlað er að breyta nafni Avion Group í Hlutafélagið Eimskipafélag Íslands og verður tillaga þess efnis lögð fram á hluthafafundi þann 21. nóvember. Orðrómur er um að enn frekari breytingar séu framundan, en fjárfestingafélagið Grettir hefur verið að styrkja tökin á félaginu.

Á væntanlegum hluthafafundi verður einnig lögð fram tillaga um kjör tveggja stjórnarmanna.