Erfið staða efnahagsmála í Evrópu endurspeglast meðal annars í söluspá Ford fyrir álfuna árið 2013 en fyrirtækið gerir í henni ráð fyrir að sala bifreiða í álfunni dragist saman um tvo milljarða dollara. Greint er frá þessu í Morgunpósti IFS. Rætist þessi spá er þetta minnsta sala Ford í Evrópu í yfir 20 ár. Hlutabréfaverð fyrirtækisins lækkuðu um rúm 4,6% eftir birtingu tilkynningar í gær.

Í gær sýndi niðurstaða væntingavísitölu fyrir janúar í Bandaríkjunum töluverða lækkun miðað við spá markaðsaðila. Í spám hafði verið gert ráð fyrir gildinu 64 en raunin varð niðurstaða upp á 58,6. Lækkunin er rakin til fjárlagahengjunnar svokölluðu. Þó að samkomulagið, sem gert var um áramótin, hafi komið í veg fyrir ýmsar skattahækkanir og niðurskurðaraðgerðir, þá urðu tekjuskattshækkanir hjá töluverðum fjölda einstaklinga. Þessi staðreynd er talin hafa spilað inn í þessa niðurstöðu, að því er segir í Morgunpóstinum.