Það þekkja flestir söguna af ósigri skákmeistarans Garry Kasparovs gegn skáktölvunni Deep Blue árið 1997. Kasparov hafði áður látið hafa það eftir sér að hann myndi aldrei tapa fyrir tölvu. Sú varð þó raunin og hafa niðurstöður leiksins verið skeggræddar allt fram til dagsins í dag.

Nú hefur hins vegar bæst við nýr flötur á söguna og byggir hann á viðtali sem Murray Campbell, einn hönnuða Deep Blue, veitti tölfræðingnum og blaðamanninum, Nate Silver, fyrir nýútkomna bók hans. Frá þessu er greint á heimasíðunni Wired.com.

Eftir tap Kasparov voru flestir sammála um að ástæðuna mætti fyrst og fremst rekja til óvænts útspils tölvunnar þegar hún valdi leik sem fórnaði taflmanni og virtist gefa vísbendingu um þær leikáætlanir sem tölvan stefndi að. Kasparov, og fleiri, höfðu hins vegar ekki trú á að tölvan gæti valið svo slungið leikbragð þar sem hún spilaði eftir fyrirfram ákveðinni forritun en ekki innsæi.

Nú hefur sú tilgáta Kasparov og félaga raunar verið sönnuð en samkvæmt viðtalinu við Campbell var það forritunarvilla sem gerði það að verkum að tölvan valdi þennan umrædda leik. Tölvan gat ekki valið næsta leik og ákvað þennan því af tilviljun.

Hvort Kasparov hefði engu að síður beðið í lægri hlut fyrir tölvunni munum við þó aldrei vita.