Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði í ræðu á Búnaðarþingi í dag að óvissa um fæðuöflun yrði sífellt meiri og sérhver þjóð yrði að verja sig áföllum í þeim efnum. Hann sagði brýnt að hefja víðtækar umræður um hlutverk landbúnaðarins á komandi árum í fæðuöryggi Íslendinga og hefja þær yfir hefðbundna togstreitu um verðlag og skipulag framleiðslunnar. Í staðinn ætti að taka mið af heimsmyndinni, hættunum sem steðjuðu að vegna breytinga í veröldinni, meðal annars vegna fólksfjölgunar og breytinga á loftslagi.

Þurfum að hefjast handa við að móta sáttmála sem tryggir fæðuöryggi

„Kjarninn í boðskap mínum til Búnaðarþings og þjóðarinnar er að við þurfum að hefjast handa við að móta sáttmála sem tryggir í framtíðinni fæðuöryggi Íslendinga. Verkefnið er ekki samningagerð á hefðbundinn hátt heldur samræða um sáttmála sem tekur mið af grundvallarhagsmunum þjóðarinnar, sáttmála sem felur í sér að fæðuöryggi hennar verði tryggt þótt þróunin í veröldinni sé óhagstæð. Slíkur sáttmáli um fæðuöryggi Íslendinga getur svo orðið grundvöllur að skipulagi framleiðslunnar, nýjum reglum um nýtingu lands, skapað markaðsþróun raunhæfan farveg. Íslenskir bændur hafa löngum sýnt ríka hæfni til að laga sig að nýjum kröfum og þjóðin hefur vaxandi skilning á að örlög annarra eru einnig okkar, að bráðnun íss á norðurslóðum hefur áhrif í fjarlægum álfum og umbyltingar á efnahag mannkyns hafa víðtækar afleiðingar hér hjá okkur. Sáttmáli um fæðuöryggi Íslendinga er því verkefni allrar þjóðarinnar á líkan hátt og útfærsla landhelginnar var á sínum tíma. Þá þurfti að tryggja forræði yfir fiskimiðum til að treysta efnahagslegan grundvöll hins unga lýðveldis. Nú þarf að sameinast um að íslenskur landbúnaður geti um alla framtíð tryggt fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er einlæg ósk mín að slíkar samræður bænda og annarra landsmanna geti hafist innan tíðar og Búnaðarþingi auðnist að láta þær falla í farsælan farveg. Þar munu koma að góðum notum bæði víðtæk reynsla og verksvit íslenskra bænda,“ sagði forseti Íslands að lokum.