Hugo Chavez forseti Venesúela er látinn. Banamein hans var krabbamein. Það var Niculas Maduro, varaforseti Venesúela, sem tilkynnti opinberlega um andlát forsetans fyrir stundu.

Chavez, sem var 58 ára gamall, gegndi embætti forseta frá árinu 1999. Hann greindist með krabbamein fyrir rúmu ári síðan og hefur síðan þá undirgengist meðferðir, m.a. á Kúbu þar sem hann dvaldi nýlega.

Fréttamiðlar vestanhafs greina frá því að her landsins hafi verið settur í viðbragsstöðu og búist sé við kaótísku ástandi í landinu næstu daga. Chavez hafði áður sagt opinberlega að Maduro ætti að taka við embætti forseta að sér látnum en samkvæmt stjórnarskrá landsins fellur það í hlut forseta þingsins að gegna embættinu þangað til nýr forseti hefur verið kjörinn.

Hugo Chavez var sem kunnugt er einn helsti andstæðingur Bandaríkjanna og átti vingott við marga aðra sem skilgreindu sig sem slíka andstæðinga, t.a.m. Fidel Castro, fv. forseta Kúbu, og Mahmoud Ahmadinejad, forseta Íran.