Dave Calhoun hefur tilkynnt að hann muni segja af sér sem forstjóri Boeing fyrir árslok en hann hefur verið undir miklum þrýstingi að láta af störfum eftir atvikið með Alaska Airlines í janúar.

Samkvæmt fréttamiðlinum Reuters mun Stan Deal, forstjóri farþegaflutningadeildar Boeing, einnig segja af sér og tekur Staphanie Pope við því starfi.

Boeing hefur verið undir miklu eftirliti frá bandarískum flugmálayfirvöldum frá því í janúar þegar hluti af skrokk flugvélar Alaska Airlines rifnaði af í miðju flugi. Yfirvöld stöðvuðu framleiðslu nýrra 737 MAX 9-flugvéla og gáfu Boeing tímafrest til að bæta úr gæðavandamálum sínum.

Flugfélög, sem hafa einnig glímt við tafir á afhendingum nýrra flugvéla, hafa þegar lýst yfir óánægju sinni með Boeing og er fyrirtækið að tapa mun meiri pening á þessum ársfjórðungi en búist var við.