„Þetta er mikilvægt átak og ekki síður skemmtilegt að komast aðeins af kontórnum og taka til hendinni undir berum himni,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1. Hann og aðrir starfsmenn höfuðstöðva N1 við Dalveg fóru í gær á þjónustustöðvar N1 á höfuðborgarsvæðinu í tilefni af hreinsunardegi fyrirtækisins og tóku þar til.

Fram kemur í tilkynningu N1 þar sem vitnað er til Eggerts, að skrifstofufólkið þreif í kringum þjónustustöðvarnar, sópaði og hirti um blómabeð eftir veturinn. Eggert Benedikt tíndi rusl í kringum þjónustustöðina á Háholti í Mosfellsbæ.

Hreinsunardagur N1 var haldinn í fyrsta sinn í fyrra. Átakið Grænn apríl  er verkefni sem hópur áhugafólks um umhverfismál hrinti í framkvæmd í fyrsta sinn 2011.