Scott Kirby, forstjóri United Airlines, reyndi í dag að fullvissa viðskiptavini um öryggi flugfélagsins eftir röð óhappa undanfarnar vikur.

Fyrr í mánuðinum lenti vél flugfélagsins, sem var á leið til Japans, í því að missa dekk skömmu eftir flugtak sem skemmdi nokkra bíla á bílastæði við flugvöllinn í San Francisco. Önnur flugvél félagsins lenti svo í Oregon á föstudaginn og kom þá í ljós að það vantaði hluta vélarinnar.

„Öryggi er forgangsverkefni okkar og er miðpunktur alls sem við gerum. Því miður, á undanförnum vikum, hefur flugfélagið okkar lent í fjölda atvika sem minna á mikilvægi öryggis,“ sagði Kirby í tölvupósti til viðskiptavina.

Forstjórinn segir að atvikin, sem eru nú öll í rannsókn hjá bandarískum flugmálayfirvöldum, væru ótengd og að teymi flugfélagsins væri að fara yfir smáatriðin til að bæta öryggisreglur.

„Þú getur verið viss um að í hvert sinn sem United-vél fer frá hliðinu eru allir meðlimir áhafnarinnar að vinna saman við að halda þér öruggum á leiðarenda,“ sagði Kirby jafnframt.