Vinstrihreyfingin grænt framboð (VG) í Reykjavík mun efna til forvals laugardaginn 24. nóvember nk. um val á framboðslista flokksins í höfuðborgarkjördæmunum tveimur í næstu Alþingiskosningum.

Þetta var ákveðið á aðalfundi félagsins í gærkvöld en greint er frá málinu á vef Ríkisútvarpsins.

Forval er í raun það sama og prófkjör. Hjá VG er það kallað forval en það felst í því að flokksmeðlimir fá að kjósa frambjóðendur á lista fyrir kosningar. Forvalið verður bindandi fyrir sex efstu sæti, þátttökurétt eiga allir flokksbundnir vinstri grænir í Reykjavík. Sama dag fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Vinstri grænir fengu fjóra þingmenn kjörna í Reykjavík í alþingiskosningunum vorið 2009. Það voru þau Árni Þór Sigurðsson, Svandís Svavarsdóttir, Álfheiður Ingadóttir og Lilja Mósesdóttir. Lilja hefur sem kunnugt er yfirgefið flokkinn og stofnað sinn eigin flokk, Samstöðu.

Ekki liggur annað fyrir en að þau Árni Þór, Svandís og Álfheiður gefi öll kost á sér á ný í vor.