Talið er að frambærilegur leikmaður fái að minnsta kosti 300-400 þúsund kr. í laun á mánuði fyrir að spila fótbolta ofan á ýmsa aðra kaupauka og aðstöðu. Mikil leynd er yfir launum knattspyrnumanna og telja sumir að ennþá viðgangist greiðslur til þeirra undir borðið. Rekstur félags í efstu deild hleypur á tugum milljóna kr. yfir keppnistímabilið.

Nokkur eftirvænting ríkir jafnan þegar líður að maímánuði meðal fótboltaunnenda því þá líður að því að Íslandsmótið í efstu deild karla hefjist.

Liðin hafa allan veturinn verið að undirbúa sig fyrir átökin með stífum æfingum og stjórnendur liðanna með því að leita hófanna að hæfum leikmönnum. Þeim hefur oft verið vandi á höndum og eftir því sem næst verður komist verður sá vandi stærri og vandleystari með hverju árinu.

Eins og í löndunum í kringum okkur eru leikmenn farnir að krefjast of hárra launa fyrir rekstrarreikning félaganna, sem þó er mörgum nauðugur sá kostur að ganga að kröfunum því annars fara leikmennirnir þangað sem betur er boðið.

Háar fjárhæðir í húfi

Það getur borgað sig fyrir íþróttafélög að leggja nokkuð í að halda bestu leikmönnunum hjá sér. Íslandsmeistarar hvers árs fá til að mynda 25 milljónir króna frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

FH varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð, 2004, 2005 og 2006 og hefur því væntanlega fengið í sinn hlut nokkra tugi milljóna frá UEFA á þessu tímabili.

Félagið hafði fjárhagslegan styrk til þess að fá til liðs við sig góða erlenda leikmenn og innlenda.

Íslandsmeistaratitillinn rann þeim úr greipum á síðasta ári og þar með greiðslan frá UEFA og segir einn viðmælandi blaðsins að það séu töluverðar blikur á lofti í rekstri knattspyrnudeildarinnar, bara af þeim sökum.

Ekki hefur tekjustreymið frá Evrópu þó alveg stöðvast til FH-inga því þeir fá dágóðar greiðslur fyrir þátttöku í UEFA-keppninni á þessu ári.

Hálfatvinnumennska

Góður leikmaður í efstu deild er talinn fá greiddar 300-400 þúsund kr. á mánuði og ofan á það bætast kaupaukar fyrir sigurleiki og aðrar greiðslur. Stærri nöfn, eins og þeir sem snúa aftur heim úr atvinnumennsku, eru margir að fá mun hærri laun.

Það hefur bjargað mörgum félögunum í efstu deild fjárhagslega að atvinnulífið hefur stutt þau dyggilega með fjárframlögum.

Einn viðmælandi Viðskiptablaðsins segir að nokkur félög eigi orðið í talsverðum erfiðleikum núna þegar atvinnulífið og auðmenn halda að sér höndum vegna efnahagssamdráttarins.

Niðurstaðan verður líklega sú að félögin snúi sér í auknum mæli að starfi í yngri flokkunum og uppeldisstefnu innan félaganna í stað þeirrar afreksstefnu sem mörg þeirra hafa aðhyllst. Það getur líka verið eftir miklu að slægjast ef félögin hlúa vel að uppeldisstarfinu.

Með því að ala upp góða leikmenn opnast möguleikar á stórri tekjulind ef samningar takast við erlend lið um sölu á þeim.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .