Heildarskuldir franska ríkisins munu nema 95,1% af landsframleiðslu á næsta ári. Þetta er 0,7 prósentustigum meira en ríkið skuldar í ár. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir skuldir hins opinbera aldrei hafa verið meiri og nokkuð umfram áætlanir. Tölur um áætlaðar skuldir franska ríkisins voru gerðar opinberar þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Francois Hollande var lagt fyrir franska þingið í dag.

BBC segir ríkisstjórnina frönsku gera ráð fyrir því að skuldahlutfallið muni lækka eftir tvö ár, þ.e. árið 2015 og muni halli á fjárlögum ekki verða meiri en sem nemur 3% á árinu. Til að ná því markmiði er gert ráð fyrir því að skattar á almenning hækki en fyrirtækjaskattar lækki á móti.

Gert er ráð fyrir því í frönskuk fjárlögunum að hagvöxtur verði 0,9% á næsta ári. Það er 0,3 prósentustigum minna en spáð var í byrjun árs.