Stjórnvöld á Spáni og Frakklandi ætla að nýta sér góðan meðbyr á fjármálamörkuðum í dag og gefa út ríkisskuldabréf upp á samtals 8,25 milljarða evra. Útgáfan er til þess ætluð að styrkja varnir ríkjanna gegn áhrifum skuldakreppunnar á evrusvæðinu.

Útgáfa Spánverja hljóðar upp á 3,75 milljarða evra skuldabréf til 10 ára.

Útgáfa Frakka hljóðar upp á 4,5 milljarða evra til 10 ára.

Elisabeth Afseth, sérfræðingur hjá breska verðbréfafyrirtækinu Evolution Securities segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna óvíst hver lántökukostnaðurinn verði. Ljóst sé hins vegar að hann verði hár.

Þetta á sérstaklega við um útgáfu Spánverja að mati Afseth. Hún varar við að nái stjórnvöld ekki að ljúka útboðinu með viðunandi hætti, hvort heldur ef bréfin seljast ekki öll eða lántökukostnaðurinn of hár, þá verði það afar neikvæðar fréttir fyrir fjármálamarkaði.