„Það voru viss samningamál sem tókust ekki og því sagði ég upp í síðustu viku,“ segir Elmar Örn Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi. Hann hefur unnið hjá Bauhaus í kringum tvö ár og kom að opnun verslunarinnar hér á landi sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Elmar sat hins vegar ekki lengi sem framkvæmdastjóri Bauhaus en hann tók við starfinu af Halldóri Óskari Sigurðssyni í apríl á þessu ári. Elmar segir í samtali við VB.is ekki búinn að ráðið sig annað. „Ég er að skoða nokkra möguleika,“ segir hann.

VB.is hefur heimildir fyrir því að Elmar hafi átt í launadeilu við yfirmenn Bauhus í Danmörku. Hann vill hins vegar ekki tjá sig um það í samtali við VB.is að öðru leyti en því að samningar um ákveðin mál hafi ekki tekist. Það leiddi til þess að Elmar sagði upp störfum. Báðir aðilar eru sáttir, að sögn Elmars.

Staðgengill Elmars kemur frá Danmörku fljótlega og mun hann ganga tímabundið í starf framkvæmdastjóra þar til nýr verður ráðinn. Ekki er búið að auglýsa starf framkvæmdastjóra Bauhaus á Íslandi laust til umsóknar.

Viðskiptablaðið fjallaði um forstjóraskipti hjá nokkrum fyrirtækjum í tölublaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .