Í Viðskiptaþættinum í dag á Útvarpi Sögu, FM 99,4, sem hefst klukkan 16, verður rætt við framkvæmdastjóra Magnet Networks, en það er fjarskiptafyrirtæki í Dublin á Írlandi. Ingvar Garðarson stýrir fyrirtækinu, en Magnet Networks og íslenska fyrirtækið Industria skrifuðu undir samning í gær um uppbyggingu á breiðbandskerfi Magnet frá grunni þar sem verður boðið upp á stafrænt sjónvarps, símaþjónustu og háhraða netþjónustu á írska markaðnum. Magnet Networks er í eigu Kenneth Peterson sem er íslensku viðskiptalífi að góðu kunnur.

Við heyrum síðan af stórhuga áformum um að opna 10 Apple verslanir á Norðurlöndum undir heitinu Apple Center, Bjarni Ákason er einn þeirra sem standa að þessu verkefni en hann vinnur nú að því ásamt hópi iðnaðarmanna að klára fyrstu verslunina í miðborg Kaupmannahafnar.

Viðskiptaþátturinn hoppar síðan yfir til Noregs, en ef menn vilja hleypa heimdraganum og reyna sig í bissness þar - þá er kjörið viðskiptatækifæri við sjóndeildarhringinn, því Óðinn Valsson er að selja bakaríið sitt sem hann hefur rekið til fjölda ára, bakaríið er á Vesturströnd-Noregs á einum vinsælasta ferðamannastaðnum þar, en um hálf milljón ferðamanna koma í bæinn á ári, og bakaríið hans Óðins er eina bakaríið á staðnum.

Við endum þáttinn síðan uppi í háloftunum, en Iceland Express sagði í gær upp öllum flugliðum sínum, sem eru 36 talsins. Flugfreyjufélag Íslands segir þetta siðlaust en Iceland Express segir þetta nauðsynlega hagræðingu. Flugliðunum verður boðin vinna hjá flugrekstraraðila Iceland Express á sömu kjörum, breska flugfélaginu Astreus, við ætlum að ræða þetta við talsmann félagsins Ólaf Hauksson og spyrja hann að því af hverju þessi leið hafi verið farin.

Þátturinn er endurfluttur klukkan eitt í nótt.