Hagnaður Vinnslustöðvarinnar á fyrstu sex mánuðum ársins nam 463 milljónum króna og jókst um 3% frá sama tíma­bili í fyrra þegar hann var 449 milljón króna. Heildar­tekjur fé­lagsins voru 2.949 milljónir króna og jukust um tæp 29% frá sama tíma­bili í fyrra. Tekjur fisk­vinnslu lækkuðu um 4,2% en tekjur út­gerðar jukust lítil­lega, eða um 1,6%. Rekstrar­gjöld hækkuðu um 752 milljónir króna frá sama tíma­bili í fyrra, eða úr 1.527 í 2.279 milljón króna.

Rekstrar­gjöld fisk­vinnslu breyttust lítið frá sama tíma­bili í fyrra en rekstrar­gjöld út­gerðar hækkuðu um tæp 10%. Ást­æða hækkunar rekstrar­tekna og gjalda er þó að langmestu leyti vegna endur­sölu fé­lagsins á mjöli og lýsi, sem var ekki hafin á fyrri helmingi síðast­liðins rekstrar­árs.

Fram­legð fé­lagsins (hagnaður fyrir af­skriftir og fjár­magns­liði) nam rúmum 670 milljónum króna og dróst saman um 12% frá fyrra ári. Fram­legðar­hlut­fall lækkaði úr 33,4% í fyrra í 22,7% í ár.

Veltu­fé frá rekstri nam 742 milljónum króna og var 25,2% af rekstrar­tekjum. Aukning veltu­fjár frá rekstri nam tæpum 12% frá fyrra ári, sem þá var 665 milljónir króna. Fjár­festingar­hreyfingar net­tó námu 645 milljónum króna. Vinnslu­stöðin hf. keypti 43% eignar­hlut í Huginn ehf. á tíma­bilinu. Huginn ehf. gerir út upp­sjávar­frysti­skipið Huginn VE. Ás­amt kaupunum á eignar­hlut í fé­laginu keypti Vinnslu­stöðin hf. afla­hlut­deild í loðnu, kol­munna og bol­fiski af Huginn ehf. en seldi til fé­lagsins afla­hlut­deild í síld og norsk-ís­lenskri síld.

Af­skriftir lækkuðu um 19 milljónir króna frá fyrra ári. Niður­staða fjár­magns­liða er jákvæð um tæpar 77 milljónir króna á þessu tíma­bili. Á sama tíma­bili í fyrra var hún nei­kvæð um 114 milljón króna. Fyrir utan áhrif styrkingar krónunnar á lang­tíma­lán fé­lagsins á 1. árs­fjórðungi þá seldi fé­lagið gjald­miðla­skipta­samning með miklum hagnaði, eins og nefnt var í til­kynningu um uppgjör 1. árs­fjórðungs.

Reiknaðir skattar tíma­bilsins nema 101,6 milljón króna en voru engir á síðasta ári.