Seðlabankastjóri skal hafa háskólapróf í hagfræði eða í tengdum greinum samkvæmt breytingartillögum meirihluta viðskiptanefndar Alþingis, á Seðlabankafrumvarpinu. Bankastjórinn skal sömuleiðis búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Skipunartími hans verður fimm ár í stað sjö.

Málið hefur verið afgreitt úr nefnd. Framsóknarmenn, Samfylking og Vinstri græn standa saman að meirihlutaáliti nefndarinnar. Sjálfstæðismenn skila séráliti.

Meðal þeirra breytinga sem meirihlutinn leggur til er að skipaður verði aðstoðarbankastjóri. Sá á að uppfylla sömu hæfniskröfur og Seðlabankastjóri. Þá á  hann að vera staðgengill bankastjóra.

Stöðu aðstoðarbankastjóra á að auglýsa eins og stöðu bankastjóra og leggur meirihlutinn til þá breytingu að sérstakri nefnd verði falið að meti hæfi þeirra. Forsætisráðherra á síðan að skipa bankastjórann og aðstoðarbankastjórann.

Þá leggur meirihlutinn til þá breytingu á skipan peningastefnunefndarinnar að forsætisráðherra skipi tvo utanaðkomandi sérfræðinga í nefndina, innlenda eða erlenda. Samkvæmt frumvarpinu var þetta í höndum Seðlabankastjóra.

Stefnt er að annarri umræðu um frumvarpið á morgun og þriðju og síðustu umræðu eftir helgi.