Viðskiptablaðið hefur undanfarnar vikur fjallað um hina ýmsu möguleika sem standa Íslandi til boða í framtíðinni. Í fyrsta hluta var fjallað um orkuna og olíuna, í öðrum hluta um ferðaþjónustuna, í þriðja hluta um norðurslóðir og tækifæri þar, í fjórða hluta um möguleikana í kvikmyndaframleiðslu og í síðustu viku var stiklað á stóru um helstu þætti landbúnaðarins.

Í sjötta hluta er fjallað um samskipti okkar við Grænland og þá möguleika sem í boði eru kjósi Íslendingar að horfa í auknum mæli til samstarfs og samvinnu við nágranna okkar norðvestur af landinu.

Hér er ein staðreynd: Flugfélag Íslands er í dag með fleiri áfangastaði á Grænlandi en á Íslandi. Áfangastaðir Flugfélagsins á Íslandi eru nú einungis þrír, Ísafjörður, Akureyri og Egilsstaðir. Á sama tíma eru áfangastaðir félagsins á Grænlandi nú fimm, þar af er flogið til þriggja allan ársins hring. Þetta eru Kulusuk, Narsarsuaq, Nuuk, Ilulissat og Ittoqqortoormiit svæðið.

„Við sjáum fyrir okkur að Ísland geti orðið, og sé í raun orðið, tengimiðstöð fyrir flug til Grænlands,“ sagði Árni Gunnarsson í sérblaði Viðskiptablaðsins um flug í lok mars sl.

Þetta eru helst erlendir ferðamenn en einnig flutningur á starfsfólki og viðskiptamönnum vegna olíu- og námuvinnslu sem nú er fyrirferðarmikil á Grænlandi. Rétt er að hafa í huga að það er einungis flogið á einn áfangastað (Kangerlussuaq) á Grænlandi frá Kaupmannahöfn þannig að farþegi sem er að koma frá meginlandi Evrópu er mun fljótari að fljúga til Íslands og síðan áfram til Grænlands, jafnvel þó hann þurfi að keyra frá Keflavík til Reykjavíkur.

Við þetta bætist að undanfarin ár hefur það færst í aukana að íslenskir þyrluflugmenn hafi starfað á Grænlandi.

Nánar er fjallað um vöxtinn á Grænlandi og tækifæri Íslands til að taka þátt í þeim vexti í sjötta hluta úttektar um framtíð Íslands í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.