Freddie Mac, næststærsti húsnæðislánasjóður Bandaríkjanna hefur beðið fjármálaráðuneytið um 13,8 milljarða dollara fjárveitingu eftir að virði félagsins fór niður fyrir núll í kjölfar gríðarlegs taps á þriðja fjórðungi ársins. Virði félagsins var neikvætt um 13.7 milljarða dollara eftir uppgjör þriðja fjórðungs, en nettótap félagins á tímabilinu nam hvorki meira né minna er 25.3 milljörðum dollara. Bloomberg segir frá þessu.

Bandarísk stjórnvöld hafa heitið því að nota um 100 milljarða dollara til að halda lífi í Fannie Mae og Freddie Mac allt frá því sjóðirnir voru teknir yfir í september. Fannie Mae hefur gefið út í þessari viku að líklegast þyrfti sjóðurinn meira fé á næstu vikum.

Sérfræðingar gera ráð fyrir að heildartap Fannie og Freddie vegna stórra staða í undirmálslánavafningum geti numið allt að því 100 milljörðum þegar upp er staðið. Í síðustu viku tilkynnti Fannie Mae um 29 milljarða tap á þriðja fjórðungi.