Samtök olíuframleiðenda (OPEC) og Rússland hafa náð samkomulagi um að draga verulega úr olíuframleiðslu eftir eitt mesta olíuverðfall síðari tíma síðustu vikur. Eftirspurn eftir olíu hefur hríðfallið síðan kórónufaraldurinn hófst.

Næsta skref, samkvæmt frétt Financial Times um málið , verður nú að fá Bandaríkin, Kanada og fleiri olíuframleiðendur utan OPEC til að taka þátt. Donald Trump Bandaríkjaforseti er meðal þeirra sem þrýst hefur á að samkomulag náist.

Markaðurinn brást ekki sérlega vel við fréttum af samningnum í gærkvöld, en olíuverð féll skarpt eftir að nánar var greint frá smáatriðum hans.

Haft er eftir talsmanni OPEC að viðræðum verði haldið áfram á fundi orkumálaráðherra G20 ríkjanna síðar í dag. Lagt er upp með að framleiðslusamdrátturinn muni hljóða upp á 10 milljón tunnur á dag, um 10% heimsframleiðslu.

Samkvæmt heimildum Financial Times er ein stærsta hindrunin í að víðtækt samkomulag náist einörð afstaða Mexíkó um að halda óskertri olíuframleiðslu áfram. Orkumálaráðherra mið-ameríkuríkisins, Rocío Nahle García, yfirgaf að sögn fjarfund eftir að hafa lagt til 100 þúsund tunna samdrátt, samkvæmt eigin tísti um málið.