Landsbankinn og slitastjórn gamla Landsbankans, LBI, hafa ákveðið að framlengja frest vegna gildisskilyrða í samningi þeirra á milli um breytingar á skilmálum skuldabréfa Landsbankans, sem yfirleitt er talað um sem Landsbankabréf. Fresturinn nær nú til 31. desember 2014.

Þetta var ákveðið í gær. Samkvæmt frétt á vef slitastjórnarinnar var ákvörðunin tekin með hliðsjón af fyrri samskiptum við Seðlabanka Íslands, "þar sem fram hefur komið að endanleg afstaða til gildisskilyrða samningsins gæti legið fyrir eigi síðar en í árslok."

Seðlabankinn mun svara því hvort hægt verði að fá undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál, en gert er ráð fyrir undanþágu í samkomulaginu um skuldabréf milli gamla og nýja Landsbankans. Slitastjórnin óskaði eftir því að svarið kæmi fyrir 1. október, svo 24. október, svo 31. október og að lokum 17. nóvember. Nú hefur fresturinn verið framlengdur út árið.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við Viðskiptablaðið fyrr í mánuðinum að áfram stæði það sem hann hefði sagt við slitastjórnina í svari við fyrsta erindinu. "Við sögðum Landsbankanum gamla í bréfi sem ég skrifaði í sumar að svarið kæmi fyrir áramót. Nú hafa þeir verið að þrýsta á svar fyrr, og auðvitað hefur það verið í skoðun hvort það sé hægt að verða við því," sagði Már þá .