Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP Banka, mótmælir því að reynt sé að draga bankann inn í deilumál sem virðist komið upp vegna lánveitingar stjórnar Byrs vegna eigin stofnfjárbréfa. Að hluta til er Margeir þar að svara yfirlýsingum nýrra samtaka stofnfjáreigenda en einnig tilkynningu sem þrír stjórnarmenn Byrs sendu frá sér fyrr í dag.

Ljóst er að mönnum ber ekki saman um aðkomu MP Banka að viðskiptum með stofnfé Byrs í gegnum félög sem tengd eru fyrrverandi stjórnaranni MP Banka, Ágústi Sindra Karlssyni.

Í yfirlýsingunni sem stjórnarmenirnir sendu út í morgun var bent á að þann 19. desember 2008 var haldinn stjórnarfundur í Byr sparisjóði. Mættir voru m.a. Jón Þorsteinn Jónsson, þáverandi stjórnarformaður og stjórnarmennirnir Ágúst Már Ármann, Jóhanna Waagfjörð og Jón Kr. Sólnes varamaður. Jón Kristjánsson var fjarverandi. Á fundinum var m.a. til umfjöllunar yfirdráttarlán sem Byr sparisjóður hafði þegar veitt til handa Tæknisetur Arkea í eigu MP fjárfestingarbanka hf. Á fundinum var samþykkt að framlengja viðkomandi yfirdráttarlán til Tæknisetur Arkea í eigu MP fjárfestingarbanka hf. / Exiter Holdings um þrjá mánuði vegna óvissu á fjármálamörkuðum og auka heimildina til þess að mæta vaxtagreiðslum.

Segja óheimilt að nota yfirdráttinn til stofnfjárkaupa

„Hafi andvirði lánsfjárheimildar að hluta eða í heild verið notað til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, er slíkt í andstöðu við afgreiðslu málsins í stjórn Byrs sparisjóðs þann 19. desember 2008," segir í yfirlýsingunni.   Áður hafa komið fram ásakanir um að hjá Exiter Holding hafi hafnað stofnfjárbréf sem hafi verið keypt of háu verði með ófullnægjandi tryggingum.

Margeir segir í sinni yfirlýsingu: „Vegna yfirlýsingar sem birt hefur verið frá þremur stjórnarmönnum í BYR vegna þessa máls skal tekið fram að félögin Tæknisetur Arkea og Exeter Holdings eru MP Banka með öllu óviðkomandi. Staðhæfingar meirihluta stjórnar BYRS um eignarhald MP Banka á þessum félögum eru ósannar. MP Banki hefur ekki veitt þeim neinar ábyrgðir og hefur ekki á nokkurn hátt komið að lánaumsóknum þeirra í BYR. Aðaleigandi félaganna sagði sig úr stjórn MP Banka sumarið 2008 þegar hann stofnaði eigið verðbréfafyrirtæki, sem tengist MP Banka á engan hátt."

Tveir slyngir skákmenn

Sá sem hér um ræðir er Ágúst Sindri Karlsson, lögmaður úr Hafnarfirði, og einn nánasti samstarfsmaður Margeirs Péturssonar til langs tíma. Um tengsl hans við MP Banka segir á heimasíðu hjónanna Sveins Margeirssonar og Rakelar Gylfadóttur: "Ágúst Sindri Karlsson, aðaleigandi Exeter Holding, sat í stjórn með Jóni Þorsteini Jónssyni fram til 2007.  Ágúst Sindri sat einnig í stjórn MP-Banka á árinu 2008 og átti 4200 hluti í lok þess árs í MP-Banka. Til samanburðar má nefna að Styrmir Þór Gunnarsson, forstjóri MP-Banka, átti 10.000 hluti í MP-Banka í lok árs 2008."

- Og þau bæta við á heimasíðu sinni ( http://verjumbyr.blog.is/blog/verjumbyr/ ): „Að okkar mati er MP-Banki þarna ábyrgur fyrir vafasömum viðskiptum, auk stjórnarmanna Byrs og Exeter Holding."

Stofnfjáreigendur í vanda verði ekki greiddur arður

Arðgreiðslur til stofnfjáreigenda voru til umræðu fyrir skömmu. Sjóðurinn greiddi 13,5 milljarða króna í arð á síðasta ári og hafði samþykkt aðra slíka greiðslu á þessu ári. Ljóst er að margir stofnfjáreigendur eru í verulegum vandræðum verði hún ekki greidd sem verður að teljast ólíklegt að sé unnt, sérstaklega ef ríkissjóður leggur  sjóðnum ekki til stofnfé eins og hann hefur þó óskað eftir.

Þá er rétt að halda því til haga, að umrædd arðgreiðsla var greidd eftir að stofnfé Byrs hafði verið aukið um tæpa 27 milljarða króna á árinu 2007. Sparisjóður getur lögum samkvæmt eingöngu greitt arð af stofnfé sínu. Þar sem arðsemi eigin fjár á þessu ári var 44% auk þess sem árið var mesta hagnaðarár Byrs, var um óvenjuháa arðgreiðslu að ræða eða 13,5 milljarð króna.

Þó að ákvörðun um umrædda arðgreiðslu hafi verið tekin með hliðsjón af sterkri stöðu sparisjóðsins, verður hún að teljast óheppileg með tilliti til þeirrar atburðarrásar sem síðar varð og leiddi til hruns bankakerfisins.

Í umfjöllun fjölmiðla hefur m.a. komið fram að stofnfjáreigendur Byrs séu of skuldsettir til að styrkja sparisjóðinn. Hjá eru um 1.500 stofnfjáreigendur.

Stærstu stofnfjáreigendur

Fjöldi stofnfjáraðila Byrs er 1.509. Listinn var síðast uppfærður þann 19.12.2008.

Nafn Stofnfé Eignarhlutur

Imon ehf 1.206.647.701 7,717%

Saxhóll ehf 1.173.627.061 7,506%

Sund ehf 959.245.570 6,130%

Kaupthing Lux 721.662.614 4,615%

Bygg invest ehf 638.706.890 4,085%

Landsbanki Lux (Kilimanjaro S.a.r.l) 556.957.854 3,562%

Fjárfestingafélagið Klettur ehf 527.786.435 3,375%

Fjárfestingafélagið Prímus ehf 484.718.735 3,100%

Myllan-brauð ehf 414.761.809 2,653%

Glitnir hf 313.097.919 2,002%

Exeter Holdings ehf 306.295.026 1,960%

Sólstafir ehf 299.426.267 1,915%

Fons Eignarhaldsfélag ehf 211.114.487 1,350%

Glitnir Eignarhaldsfélag ehf 207.475.442 1,327%

Hagar ehf 207.475.442 1,327%

Skarðshyrna ehf 151.114.487 0,966%

Sameinaði Lífeyrissjóðurinn 141.372.454 0,904%

Saga Capital fjárfestingarbanki hf 120.187.613 0,769%

Helgi Vilhjálmsson 105.557.287 0,675%

Þórður Magnússon 105.557.287 0,675%

Víkur ehf 103.002.638 0,659%

Sparisjóðurinn í Keflavík 75.033.712 0,480%

Bert Martin Hansson 71.878.599 0,460%

Eiður Gunnlaugsson 69.371.343 0,444%

Einar Örn Jónsson 62.296.954 0,398%

Jón Kr. Sólnes 62.185.116 0,398%

Skúli Ágústsson 47.314.756 0,303%

VBS Fjárfestingabanki hf. 44.774.895 0,286%

Þorsteinn Ólafur Þorsteinsson 43.117.378 0,276%

Rauðagil ehf. 42.242.698 0,270%

--- --- ---

Þrjátíu stærstu samtals 9.474.006.470 60,59%

Aðrir stofnfjáreigendur samtals 6.162.250.120 39,41%

Stofnfjárhlutir samtals 15.636.256.590 100,00%