Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu dróst nokkuð saman í vikunni eða um 33% milli vikna. Þannig nam veltan 1.458 milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands (áður Fasteignamat ríkisins) en rétt er þó að hafa í huga að veltan í vikunni á undan verið töluvert yfir meðaltali síðustu mánaða, eða frá því um miðjan október.

Fjögurra vikna meðalvelta er nú vel rúmir 1,4 milljarðar króna og hækkar um tæpar tvö hundruð milljónir, aðra vikuna í röð. Fjögurra vikna meðalvelta hefur nú náð hámarki frá því í byrjun nóvember.

Til gaman smá geta þess að fjögurra vikna meðalvelta var undir milljarði um miðjan febrúar og hafði þá verið undir milljarði frá áramótum. Þannig má segja að fasteignamarkaðurinn hafi verið að vinda upp á sig hægt og rólega, þó með örlitlum frávikum, frá því um miðjan febrúar.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan en meðalveltan hefur minnkað um 17% milli ára og sú tala hefur farið verulega minnkandi. Það er ekki lengra síðan en í lok febrúar sem fjögurra vikna meðalvelta hafði dregist saman um 70% milli ára. Í byrjun mars á síðasta ári fór velta á fasteignamarkaði að dragast og það útskýrir að mestum hluta minnkandi sveiflur milli ára.

Alls var 44 kaupsamningum þinglýst í vikunni en 50 samningum var þinglýst í vikunni þar áður. Að meðaltali var 52 samningum þinglýst á viku á síðasta ári en frá áramótum hefur 33 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku.

Meðalupphæð á hvern samning lækkar á milli vikna, nemur 33,1 milljón króna á hvern samning, sem er nálægt meðaltali, en var 43,3 milljónir í vikunni þar á undan. Meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári voru tæpar 32 milljónir króna en eru rúmar 35 milljónir króna frá hvern samning frá síðustu áramótum.

Á ársgrundvelli hefur vikuvelta á fasteignamarkaði aukist um 3% og hefur aukist milli ára nú aðra vikuna í röð en í síðustu viku hafði vikuveltan aukist um 23% milli ára og var það í fyrsta skipti síðan í janúar 2008 sem velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu eykst milli ára. Rétt er að geta þess að líkt og fyrr segir getur velta sveiflast nokkuð á milli vikna og því nær að líta til fjögurra vikna meðalveltu sem fjallað var um hér að ofan.