Um 400 milljóna króna krafa Byrs á hendur MP banka er á gamla bankann, sem nú heitir EA fjárfestingafélag. Margeir Pétursson og aðrir fyrrum eigendum MP banka eiga það félag en inn í félaginu eru eignir og starfsemi MP banka í Úkraínu. Skúli Mogensen, stærsti eigandi nýs MP banka með um 17,5% hlut, segir í samtali við Viðskiptablaðið að krafa Byrs og öll slík mál verði ekki inn í nýjum MP banka. „Öll slík mál verða skilin eftir. Á það var lögð mikil áhersla,“ segir Skúli.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í mars sl. að MP banki þarf að greiða Byr um 400 milljónir króna vegna tveggja hálfs milljarðs króna kúlulána til einkahlutafélagsins Hansa, í eigu Björgólfs Guðmundssonar. Byr höfðaði mál á hendur MP banka vegna lánanna.

Málið snýst um aðildarsamning sem gerður var að láninu. Fyrir láninu voru veðsett hlutabréf í Landsbankanum. Byr sakaði MP banka um að selja hlutabréfin fyrir rúmlega hálfan milljarð án þess að greiða Byr 60% upphæðarinnar, tæplega 317 milljónir. Það hafi hann átt að gera samkvæmt samningnum.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að MP banka beri að greiða Byr 317 milljónir auk dráttarvaxta. Alls nemur upphæðin um 400 milljónum króna. Sú krafa er því á gamla MP banka, nú EA fjárfestingafélag, en ekki þeim nýja.

Hlutafjáraukning í gegnum dótturfélag

Nýir hluthafar MP banka, sem eru yfir 40 talsins, eignast bankann og starfsemi á Íslandi og í Litháen. Þær eignir voru færðar inn í dótturfélag bankans sem heitir nb.is. Í gegnum það félag fór 5,5 milljarða króna hlutafjáraukningin fram og er nýr banki á kennitölu nb.is. Nafninu var hinsvegar breytt og heitir MP banki. Á blaðamannafundi í dag sagði Skúli að rætt hafi verið um að breyta nafni bankans og að það standi til. Þorsteinn Pálsson, nýr stjórnarformaður, bætti því við að allar tillögur að nýju nafni séu vel þegnar. Því má telja líklegt að MP banki muni ekki bera það nafn mikið lengur.

Skúli Mogensen kynnti hvernig hlutafjáraukning fór fram á blaðamannafundi í dag og tók sérstaklega fram að ekki væri um að ræða skiptingu bankans í neikvæðum skilningi. Eignarhald utan um eignir í Úkraínu verða áfram í eigu Margeirs Péturssonar og annarra hluthafa gamla MP banka. Þeirra hlutur í MP banka þynnist að öllu út við breytingarnar en halda áfram um eignir í Úkraínu í gegnum félagið EA fjárfestingafélag. Nokkrir fyrrum hluthafar vörðu hlut sinn og tóku þátt í hlutafjárútboðinu. VÍS, TM og Drómi vörðu þannig hlut sinn og eru í hluthafahóp MP banka.


MP banki hluthafalisti
MP banki hluthafalisti
© None (None)

Nýir hluthafar í MP banka. Stækka má myndina með þvi að smella á hana.

Ætla að skila hagnaði strax í ár

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Skúli að bankinn ætli sér að skila hagnaði og áætlanir geri ráð fyrir hagnaði strax í ár. „Við höfum sett markmiðið að vera með 15-20% arðsemi eigin fjár. Við teljum það mjög gerlegt, án þess að taka óeðlilega áhættu til þess að ná slíkri arðsemi. Við höfum lagt ríka áherslu á að setja ekki of háleit markmið hvað varðar ávöxtun eigin fjár,“ segir Skúli.

Skúli telur að hér á landi séu sóknartækifæri. „Auðvitað þarf að stíga varlega til jarðar en þau eru klárlega til staðar. Sérstaklega meðal  lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hafa ekki fengið neina þjónustu. Við finnum fyrir því að það er mikill áhugi meðal slíkra fyrirtækja fyrir að koma í viðskipti við bankann. Þessi fyrirtæki eru uppistaðan í samfélaginu. Það er mikil áhersla á risana og stóriðjuna en þegar upp er staðið þá eru það litlu fyrirtækin hér um allan bæ sem halda hlutunum gangandi. Það á ekki bara við hér heldur í öllum heiminum.“

Útlánageta eykst

Afar erfitt hefur verið að fá ný lán hjá bönkunum eftir hrun. Aðspurður hvort gera megi ráð fyrir því að það muni breytast segist Skúli vona að svo verði. „Það þurfa auðvitað allir að standast skoðun og þetta verður gert á viðskiptalegum forsendum. En bankinn hefur núna svigrúm til þess að þjónusta slík [innsk. blm: minni og meðalstór] fyrirtæki.“

Í kynningu Skúla á fundinum kom fram að efnahagsreikningur nýs MP banka er um 53 milljarðar að stærð. Lausafjárstaða bankans er 39% af efnahagsreikningi, eða um 20 milljarðar króna, og eiginfjárhlutfallið er um 24%. Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins má það að lágmarki vera 16%. Að sögn Skúla er útlánageta bankans nú um 18 milljarðar króna og eykst með tilkomu 5,5 milljarða eiginfjáraukningu.

Þorsteinn Pálsson stjórnarformaður

Líkt og greint hefur verið frá er Þorsteinn Pálsson nýr stjórnarformaður MP banka. Á blaðamannafundinum í dag sagði Þorsteinn að hann hafi þurft töluvert langan tíma til að hugsa sig um eftir að Skúli óskaði eftir stjórnarsetu hans. Hann hafi þó ákveðið að slá til og sagðist vona að reynsla hans kæmi að góðu gagni.

Þorsteinn Pálsson.
Þorsteinn Pálsson.
© BIG (VB MYND/BIG)

Þorsteinn Pálsson, stjórnarformaður MP banka.


Aðrir í stjórn eru Skúli Mogensen sem verður varaformaður, Hanna Katrín Friðriksdóttir sem starfar sem yfirmaður viðskiptaþróunar á lyfjasviði Icepharma, Vilmundur Jósefsson formaður Samtaka Atvinnulífsins og Mario Espinosa. Hann er framkvæmdastjóri Tavistock Group,félags Joseph. C. Lewis. Manastur Holding, sem er í eigu Lewis, á um 9,7% í nýjum MP banka.

Laun stjórnarmanna verða 250 þúsund krónur á mánuði, að frátöldum stjórnarformanni sem mun hafa 500 þúsund krónur á mánuði.

Engin lán til virkra hluthafa

Þá sagði Skúli á blaðamannafundinum að samkvæmt nýjum samþykktum bankans verður bankanum óheimilt að taka veð í eigin hlutabréfum og virkum hluthöfum, og fyrirtækjum þeirra, er óheimilt með öllu að fá lán frá bankanum. Í kynningunni kom einnig fram að engar aflandskrónur séu notaðar til kaupanna á bankanum, engin fyrirgreiðsla hafi verið veitt frá bankanum til nýrra hluthafa og að hlutafé hafi verið greitt í reiðufé inn í bankann.