Stjórnvöld í Chile tilkynntu á föstudag að þau hafa fullgilt fríverslunarsamning EFTA og Chile. Samningurinn fær gildi þegar 1. desember og þá falla niður allir tollar á sjávarafurðum milli Íslands og Chile auk þess sem flestar tegundir iðnvarnings verða tollfrjálsar.

Mikilvægt fyrir atvinnulífið Lárus Ásgeirsson sölu- og markaðsstjóri Marel segir í viðtali við Stiklur, vefrit viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, að gildistaka samningsins séu gleðitíðindi fyrir fyrirtækið. "Þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkur. Tollar eru felldir niður á okkar afurðum og við munum nota samninginn til að auka markaðshlutdeild okkar á þessum mikilvæga
markaði."

Ísland leiddi samningaviðræðurnar

Ísland leiddi samningaviðræðurnar fyrir hönd EFTA-ríkjanna. ?Samningurinn við Chile veitir fulla fríverslun með allar sjávarafurðir frá gildistöku hans
og jafnframt fríverslun með iðnaðarvörur frá sama tíma,? segir Benedikt Jónsson sendiherra sem var talsmaður EFTA ríkjanna í samningaviðræðunum. Grétar Már Sigurðsson, skrifstofustjóri
viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, segir að samningurinn feli í sér ýmis tækifæri fyrir íslenska útflytjendur. "Chile er eitt stærsta fiskveiðiríki
heimsins og skapast færi á markaðssókn m.a. fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem framleiða tæki og vörur fyrir framleiðslu sjávarafurða." Samningurinn
takmarkast ekki við frelsi í vöruviðskiptum heldur nær hann einnig til annarra þátta, segir Grétar Már.

"Samningurinn fellur undir svokallaða annarrar kynslóðar fríverslunarsamninga. Það þýðir að hann nær einnig til þjónustuviðskipta, verndunar hugverkaréttar, opinberra innkaupa og samkeppni.?

Samhliða fríverslunarsamningnum gerði Ísland samning um landbúnaðarmál beint við Chile og fær sá samningur gildi á sama tíma.