Silicor Materials undirritaði í vikunni samning við þýska stórfyrirtækið SMS Siemag um kaup á öllum tækjum og vélum í nýja sólarkísilverksmiðju sem reist verður á Grundartanga. Samningurinn er metinn á 70 milljarða króna. Stjórnarformaðurinn segir að fríverslunarsamningur Íslands við Kína sé rúsínan í pylsuendanum.

Heildarfjárfesting vegna byggingar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga nemur 120 milljörðum króna og því ljóst að framkvæmdin er sú stærsta á Íslandi frá því fyrir hrun. Ný verksmiðja mun skapa um 450 ný störf og þar af verða um 150 störf fyrir háskólamenntað fólk. Auk þessa er gert ráð fyrir að um 300 manns muni starfa við byggingu verksmiðjunnar.

Í fyrsta áfanga mun verksmiðjan framleiða 16 þúsund tonn á ári en síðan er stefnt að því að auka framleiðsluna í 19 þúsund tonn. Gert er ráð fyrir því að verksmiðjan hefji starfsemi síðla árs 2017 eða í byrjun árs 2018. Miðað við full afköst þarf verksmiðjan 85 megavött af orku. Ekki er búið að ganga frá samningum um kaup á orku en viðræður eru í gangi við bæði ON (Orku náttúrunnar) og Landsvirkjun. Viðræðurnar við ON eru lengra komnar en þar hefur verið gengið frá svokölluðum skilmálasamningi.

John D. Correnti, stjórnarformaður Silicor Materials, er vel þekktur stáliðnaðinum í Bandaríkjunum. Hann var um tíma forstjóri Nucor Corp. sem er næst stærsti stálframleiðandi Bandaríkjanna. Árið 2012 námu tekjur Nucor 2.600 milljörðum króna. Hann gekk til liðs við Silicor Materials árið 2010 og þá strax sem stjórnarformaður.

„Kísiliðnaðurinn er tiltölulega nýr iðnaður fyrir mér en ég hef verið viðriðinn stálframleiðslu í 40 ár," segir Correnti í samtali við Viðskiptablaðið. „Ég elska stað eins og Grundartanga enda myndi ég aldrei byggja verksmiðju eins og þessa við stórborg. Ég ólst sjálfur upp í smábæ í vestur New York fylki og veit því hvað ég er að tala um. Hugarfar fólks úti á landsbyggðinni er annað en hugarfar fólks sem býr í borgum. Þetta er yfirleitt dugmikið fólk sem er tilbúið að vinna mikið og í törnum, svona eins og þekkist á sveitabæjum."

58% tollur

Correnti segir að upphaflega hafi Silicor Materials viljað reisa verksmiðjuna í Bandaríkjunum en eftir að Kínverjar hafi lagt á 58% toll á sólarkísil frá Bandaríkjunum hafi þau áform snarlega breyst.

„Kína framleiðir langmest af sólarsellum og þar af leiðandi er Kínamarkaður gríðarlega mikilvægur," segir Correnti. „Við spurðum okkur því að því hvar við gætum reist svona verksmiðju.Við þurftum að finna stað þar sem við gætum fengið ódýra orku, þar sem innviðir væru í lagi og efnahagslegur stöðugleiki ríkti sem og stað þar sem fólk væri vinnusamt. Þeir staðir sem komu til greina voru Sádí Arabía, Kanada og Ísland. Að lokum varð Ísland fyrir valinu enda uppfyllti það öll þessi skilyrði. Ekki bara það heldur hefur Ísland einnig gert fríverslunarsamning við Kína og það vó sannarlega þungt. That was the cherry on the sundae, the icing on the cake."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .