Frosti Ólafsson hefur sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Þetta kemur fram á mbl.is . Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins yfirgefur hann starfið til að taka við sem forstjóri Orfs Líftækni. Orf framleiðir meðal annars Bioeffect-húðvörur sem seldar eru í yfir 1.000 verslunum í 28 löndum.

Frosti hefur undanfarið fjögur ár gegnt starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs og á þeim tíma hefur ráðið verið afar áberandi í samfélagsumræðunni. Viðskiptaráð stendur einnig fyrir Viðskiptaþingi, en það næsta fer fram þann 9. febrúar.

Frosti starfaði áður hjá McKinsey & Company í Kaupmannahöfn, en hann er hagfræðingur að mennt og með MBA-gráðu frá London Business School. Að sögn Morgunblaðsins hefur verið gengið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs og er von á tilkynningu um miðja næstu viku.