„Ég er bara að skoða landið og miðin,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir, rektor háskólans á Bifröst. Hún sagði starfi sínu lausu í febrúar, hættir í sumar en hefur ekki tryggt sér annað starf. Rétt er þó að benda á að Bryndís er stjórnarformaður Landsvirkjunar. Eins og greint var frá í morgun hefur Vilhjálmur Egilsson , framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, verið ráðinn í stað Bryndísar og mun hann hefja störf 1. júlí.

Bryndís hóf störf sem aðstoðarektor við háskólann á Bifröst árið 2005 og tók við rektorsstarfinu í janúar árið 2011.

Hún segir í samtali við vb.is ástæðuna fyrir uppsögn sinni þá að synir sínir ætli að hefja nám við menntaskóla í Reykjavík næsta haust og ætli fjölskyldan að flytja til höfuðborgarinnar.

„Þetta er ekki starf sem maður sinnir úr höfuðborginni,“ segir Bryndís.