Níu hundruð fyrirtækjum verður slitið að óbreyttu fái fyrirtækjaskrá heimild til að krefjast gjaldþrotaskipta yfir öllum þeim félögum sem ekki hafa skilað ársreikningi fyrir síðustu þrjú reikningsár. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir í samtali við Fréttablaðið að líklegt sé að ferlið hefjist sjálfkrafa rjúfi félög þriggja ára frestinn. Fjöldi virkra félaga sem hafa ekki skilað reikningi í þrjú ár eða lengur er um 900.

Í greinargerð starfshóps sem birti í síðustu viku tillögur að lagabreytingum og aðgerðum gegn kennitölu flakki er lagt til að fyrirtækjaskrá, sem er hluti embættis ríkisskattsstjóra, fái heimild sem í núgildandi lögum er hjá ráðherra til að krefjast skipta á félögum sem trassa ársreikningaskil.

Skúli Eggert segir í samtali við Fréttablaðið að vanskil á ársreikningum séu eitt stærsta vandamálið sem embætti hans stendur frammi fyrir og hindri nægilegt gegnsæi viðskiptalífsins. „Mér finnst ekki ósennilegt, verði þessu ferli komið á, að þetta muni gerast nánast sjálfkrafa. Ef félag skilar ekki inn gögnum innan þessa tíma [þriggja ára] missa eigendur þess réttinn til að reka félagið með takmarkaðri ábyrgð.“