Dótturfélag Actavis, Kéri Pharma Generics, hefur hafið markaðsetningu á hjartalyfinu Ramipril í Ungverjalandi, segir í tilkynningu.

Actavis keypti Kéri í september síðastliðnum og varan er sú fyrsta sem Actavis framleiðir fyrir ungverska markaðinn. Félagið reiknar með að setja að vöru, framleidda af Actavis, á markað síðar á þessu ári.

Að sögn Sigurðar Óla Ólafssonar, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs fyrir eigin vörumerki, er það ætlun Actavis að skrá vörur á ungverska markaðnum undir eigin vörumerkjum. Actavis hefur nú þegar 12 markaðsleyfi fyrir lyf í Ungverjalandi sem fyrirtækið getur nú þegar sett á markað í gegnum Kéri.

Ramipril, sem er fyrst og fremst notað við háþrýstingi, var upphaflega sett á markað af Actavis í janúar árið 2004 í þremur löndum og markaði þá víðtækustu markaðssetningu fyrirtækisins frá upphafi. Dreifingin til Ungverjalands fer í gegnum Medis, dótturfélag Actavis, sem sér um sölu til þriðja aðila, og er dreift undir nafninu Meramyl, sem er skrásett vörumerki Kéri Pharma, í þremur styrkleikaflokkum (2,5 mg, 5 mg og 10 mg).