Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) samþykkti fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda á fundi sínum í Washington í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu en með endurskoðuninni veitir stjórnin heimild til þess að afgreiða næsta hluta af lánasamningi AGS til Íslands að fjárhæð 167,5 milljóna Bandaríkjadala (21 milljarði króna).

Auk þess er að vænta viðbótarlána frá Norðurlandaþjóðunum að upphæð 625 milljónum dala (78 milljörðum króna) í kjölfar þessarar samþykktar sjóðsins.

Þá kemur fram að næsta endurskoðun efnahagsáætlunarinnar er nú áformuð eftir miðjan desember á þessu ári. Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á endurskoðun áætlunarinnar hefur samstarf AGS og Íslendinga verið framlengt til maí 2011 frá nóvember 2010 eins og gert var ráð fyrir í upprunalegu samkomulagi.