Sérfræðingar í alþjóðaviðskiptum hafa áhyggjur af því að slysið í Baltimore sem átti sér stað í vikunni þegar gámaskip rakst á brú með þeim afleiðingum að brúin hrundi gæti haft áhrif á aðfangakeðjuna.

Skipið Dali varð rafmagnslaust snemma á þriðjudagsmorgni og klessti á Francis Scott Key-brúna í Baltimore og er talið að sex hafi látist.

Yfirvöld hafa stöðvaða allan skipaflutning úr höfninni en á síðasta ári fór meira en 47 milljón tonn af farmi þar í gegn. Að sögn yfirvalda hefur öll starfsemin verið stöðvuð þar til annað kemur í ljós.

Marco Forgione, framkvæmdastjóri hjá The Institute of Export and International Trade, segir í samtali við fréttamiðilinn BBC að þetta gæti haft veruleg áhrif á alþjóðlegar aðfangakeðjur.

Til að mynda fóru meira en 750 þúsund bílar og önnur farartæki í gegnum Baltimore-höfnina á síðasta ári. Þar á meðal voru bandarísk og evrópsk vörumerki á borð við GM, Ford, Nissan og Audi.

Höfnin í Baltimore er stærsta höfn Bandaríkjanna þegar kemur að bílaflutningum og flutningum á landbúnaðar- og byggingarvélum. Hún er líka næststærsta höfnin þegar kemur að kolaútflutningi frá Bandaríkjunum.

„Það er of snemmt að segja til um það hvað þarf til þess að hreinsa höfnina og koma skipum þar í gegn á ný,“ segir Marco.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði við blaðamenn að stjórnvöld myndu færa himin og jörð til að opna höfnina á ný og endurbyggja brúna en bætti við að ferlið myndi taka sinn tíma.

Auk sjóflutninga hefur slysið haft veruleg áhrif á atvinnulífið í Baltimore. Tæplega 15.000 manns starfa við höfnina sem styður jafnframt við 140 þúsund störf til viðbótar.