Ársreikningur Garðabæjar var lagður fram í bæjarráði í dag. Samkvæmt honum var rekstrarniðurstaða bæjarfélagsins jákvæð um 482 milljónir króna, en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 159 milljóna króna.

Rekstrartekjur ársins námu 10.724 milljónum króna og rekstrargjöld með fjármagnsliðum voru 10.242 milljónir. Stærsti liðurinn í rekstri bæjarins er laun og launatengd gjöld sem námu 5.239 milljónum króna. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans er varið 4.702 milljónum. Tæplega 1.200 milljónir fara til íþrótta- og æskulýðsmála og 975 milljónir í félagsþjónustu.

Framkvæmdir síðasta árs námu samtals 1.573 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 1.446 milljónum. Stærstu framkvæmdir ársins voru bygging bílatæðakjallara á Garðatorgi fyrir um 407 milljónir, framkvæmdir við stækkun Hofsstaðaskóla og endurbætur í grunn- og leikskólum bæjarins fyrir tæpar 300 milljónir króna. Þá námu framkvæmdir við gatnagerð um 420 milljónir króna.

Eignir nema samtals 21.551 m.kr. árið 2014 og hafa hækkað um 989 m.kr. milli ára. Veltufé frá rekstri er 1.393 m.kr. en var 1.576 m.kr. árið 2013.

Veltifjárhlutfall er 0,63 og eiginfjárhlutfall 54%. Skuldahlutfall hefur lækkað, er 93% en var 98% árið 2013. Langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir nema þannig samtals 5.717 milljónum króna samanborið við 5.804 milljónir árið 2013.