Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundi í Valhöll sem nú stendur yfir, að það væri mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði ekki í fylkingar út af Evrópusambandsmálum.

„Það verður eitt meginverkefnið að tryggja að það gerist ekki," sagði hann og bætti því við að þá þyrftu allir sem hefðu sterka skoðun á málinu að sýna það í verki að þeir væru tilbúnir að taka þátt í slíku samkomulagi.

Sjálfstæðismenn ræða nú Evrópusambandsmál í Valhöll, húsakynnum Sjálfstæðisflokksins. Forystumenn Evrópunefndar flokksins, þeir Kristján Þór Júlíusson og Árni Sigfússon, gerðu fyrr á fundinum grein fyrir starfi nefndarinnar.

ESB - aðild er ekki neitt skyndilegt bjargráð

Geir sagði að því búnu að innan flokksins væru ólík sjónarmið til málsins. „Ég held það megi hiklaust fullyrða að þetta framtak [vinna Evrópunefndarinnar - innsk. blm.]," sagði hann, „hefur varpað skýrari ljósi á það hverjir eru helstu kostirnir og gallarnir sem tengjast Evrópusambandinu."

Hann bætti því við að það væri líka ljóst að aðild að ESB gæti ekki verið, í ljósi núverandi aðstæðna, neitt skyndilegt bjargráð. Þá sagði hann ljóst að þegar verið væri að meta kosti og galla ESB yrði huglægt mat líka að koma til sögunnar.

Geir sagðist enn fremur taka undir með Illuga Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, sem skrifaði í grein í Morgunblaðinu í dag um að ekki væri hægt að hafa þetta mál hangandi yfir okkur í þjóðfélaginu árum saman. Það yrði með öðrum orðum að fá botn í það hvað væri Íslendingum fyrir bestu „og vinna úr því með hagsmuni Íslands eingöngu að leiðarljósi," sagði Geir.

Gengur til landsfundar án fordóma

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í þarnæstu viku. Geir sagði að hann gengi til þessa máls á landsfundinum án fordóma. Hann sagðist vera tilbúinn að ræða alla hluti.

Síðan sagði hann: „Það er mjög mikilvægt [....] að þetta mikla stjórnmálaafl klofni ekki í fylkingar út af þessu máli. Það verður eitt meginverkefnið að tryggja að það gerist ekki. En þá þurfa allir sem hafa sterkar skoðanir á þessu máli að sýna það í verki að þeir séu tilbúnir að taka þátt í slíku samkomulagi."