Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Iðnó að sér hefði verið sagt að hafi verið einhverjir fjármagnsflutningar á milli Landsbankans á Íslandi og dótturfélags hans í Bretlandi þá hafi það verið fyllilega eðlilegt. Þetta mál þurfi hins vegar að kanna.

Geir var þarna að svara fyrirspurn um þá fullyrðingu breska forsætisráðherrans, Gordons Brown, að stórfelldir fjármagnsflutningar hefðu átt sér stað frá Bretlandi til Íslands, fyrir nokkrum dögum.

Geir kvaðst gera ráð fyrir því að skilanefnd bankans leiddi þetta í ljós. Óþolandi væri fyrir bankann að liggja undir svona ásökunum af hálfu breska forsætisráðherrans.

Hafi hins vegar verið brotin lög  þurfi menn að bera ábyrgð á því.