Samstarfsmaður rússneska auðkýfingsins Roman Abramovich, Oleg Deripaska, er orðaður við fjárfestahóp Eggerts Magnússonar, en búist er við kauptilboði í hópsins í breska knattspyrnufélagið West Ham á næstu dögum.


Breska blaðið The Daily Express segir Deripaska tengdan fjárfestahópnum og að forsætisráðherra Íslands, Geir Haarde, hafi beðið samstarfsmann Abramovich um að koma Eggerti til hjálpar. The Daily Express segir forsætisráðherra vera kunningja Abramovich.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur átt samskipti við Abramovich, sem kom til Íslands í boði forsetans sem héraðsstjóri í Síberíu og til að skoða orkumál. Ekki er vitað til þess að forsætisráðherra þekki Abramovich persónulega.

Ekki hefur komið skýrt fram hvernig Eggert hyggst fjármagna kauptilboð sitt. Í tilkynningu nýlega var greint frá því að Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbanka Íslands, muni styðja kauptilboðið fjárhagslega.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að vinna að fjármögnun á hugsanlegum kaupum fjárfestahóps Eggerts á West Ham.